Greinargerð um störf Sólveigar Magnúsdóttur á skrifstofu Strætisvagna Reykjavíkur frá 1. október 1947 til 1. október 1997.

Hinn 1. október 1947 hóf ég störf á skrifstofu SVR, en hún var þá til húsa að Hverfisgötu 18. Skrifstofan var á efri hæð hússins, sem var í eigu þáverandi forstjóra SVR, Jóhanns Ólafssonar. Hann var með sína eigin skrifstofu á sömu hæð og við og verslun á 1. hæð, en í gegnum hana þurfti að ganga til að komast upp á loft.
Fyrstu störf mín voru að telja upp úr töskum vagnstjóra frá deginum áður ásamt fjórum til fimm öðrum stúlkum, Við sátum í hring í kringum eitt borð, töldum og “túbuðum” mynt, sléttuðum og töldum krónuseðla. Uppgjör úr hverri tösku færðum við skrifstofustjóranum, Skúla Halldórssyni og sá hann um framhaldið. Myntin fór til ríkisféhirðis og seðlar í banka.
Aðrir starfsmenn á skrifstofunni þá voru, fyrir utan okkur stelpurnar, Steinunn Magnúsdóttir, systir mín og eiginkona Skúla. Hún var gjaldkeri og sá um útreikning launa vagnstjóra og versktæðismanna. Skúli skrifstofustjóri sá aftur á móti um laun skrifstofufólksins og eftirlitsmanna.
Húsnæðið var vlðkunnanlegt en ekki að sama skapi heppilegt að því leyti að bera þurfti töskurnar fullar af peningum upp stigann og járnkassa fulla af mynt niður stigann en það var verk vaktformanna og eftirlitsmanna á þessum stað allt til ársins 1951.
Forstjóri Strætisvagna Reykjavíkur var ekki að troða öðru starfsfólki skrifstofunnar um tær og minnist ég þess að hafa séð honum bregða fyrir einu sinni í þessi fjögur ár, sem við vorum á þessum stað.
Út um gluggann á skrifstofunni blasti við Þjóðleikhúsið og þurfti ég ekki annað en að líta til hliðar til að sjá síðustu hönd vera lagða á smíði þess en það var vígt árið 1950.
Árið 1950 urðu kaflaskipti í sögu SVR. Nýr forstjóri var ráðinn til starfa, Eiríkur Ásgeirsson og skrifstofan og við með var flutt í næsta hús eða í Traðarkotssund 3. Þar hafði kaffistofan Aldan verið til húsa. Hinu nýja húsnæði var skipt þannig, skrifstofa forstjóra var á efri hæð og fjögur herbergi á neðri hæð undir aðra starfsemi skrifstofunnar: launagjaldkera, myntgjaldkera, talningarherbergi og afgreiðslu. Salernið var ca. 4 fm. með aðstöðu til að hella upp á kaffi á boðshorni, sem var u.þ.b. 30 cm í þvermál.
Starf mitt á nýja staðnum breyttist talsvert. Á móti annarri stúlku sá ég um símavörslu við skiptiborð, afgreiðslu réttra reikninga og aðra hvora viku fór ég niður á Lækjartorg (Hótel Heklu) kl. 9.30 með farmiða til að selja vagnstjórunum og skipta um og gera upp veski þeirra. Einnig þurfti að gera upp tösku vagnstjórans á Lögbergsleið en á þeirri leið voru mörg mismunandi fargjöld. Yfirleitt kom ég aftur úr þessum leiðangi um 13.30 til að gera upp við gjaldkera.
Á þessum árum var farið að nota brúsa í vagnanna og var ég fengin til að vera fulltrúi skrifstofu á verkstæði SVR á Kirkjusandi fyrir venjulegan vinnutíma. Þar var ég viðstödd losun brúsanna, og fylgdi því næst peningunum á skrifstofu. Þetta var opinn sjóður.
Eftir vinnu á daginn mætti ég á skrifstofuna til að þvo og bóna borðin í talningunni til þess að þau væru tilbúin fyrir peningasendingu morgundagsins.
Nýi forstjórinn vildi láta þéra sig en er ég hrædd um að ég hafi stundum gleymt mér, sérstaklega þegar við voru að uppfarta hann með kaffi við þær aðstæður sem ég minnist á áður.
Enn einu sinni stóð flutningur fyrir dyrum. Árið 1958 fluttum við að Hverfisgötu 115 í fyrrum íbúðarhús Gasstöðvarstjórans í Reykjavík. Húsið hafði verið innréttað upp á nýtt með starfsemi skrifstofunnar í huga.
Það varð sérstaklega mikil breyting til batnaðar við talninguna og voru talningavélar settar upp í fyrsta skipti og vagnar á teinum til að færa myntina í pokum. Allar þessar breytingar horfðu til mikilla framfara og þæginda fyrir starfsfólkið.
Húsnæðið var á tveimur hæðum. Á neðri hæð voru skrifstofur gjaldkera, afgreiðsla og talning og á efri hæð skrifstofur forstjóra og skrifstofustjóra. Þar var einnig rúmgóð kaffistofa með ísskáp og rafmagnshellu. Þetta var eftirminnilegur lúxus.
Það var nokkrum árum eftir að við fluttum á Hverfisgötu 115 sem Eiríkur Ásgeirsson forstjóri fór fram á það við Steinunni Magnúsdóttur að hún hætti störfum. Ástæður uppsagnarinnar voru þær að mati forstjórans að ekki væri heppilegt að hjón ynnu á sama vinnustað og það var enginn vafi í hans huga hvort þeirra hjóna ætti að víkja. Steinunn hætti störfum 15. mars 1962 og hafði ég kynnt mér starf hennar og gripið inn í ef á þurfti að halda enda var það orðið mjög umfangsmikið. Mér var ekki boðið starfið heldur réð forstjórinn til sín vin sinn, sem bráðvantaði vinnu. Nokkrum mánuðum seinna losnaði svo starf hjá endurskoðunardeild Reykjavíkurborgar, sem heillaði vininn enn meira þannig að úr varð að ég tók við gamla starfinu hennar Steinunnar og félaginn gat þar með losnað úr því á stundinni.
Nýju verkefnin mín voru fólgin í að reikna út öll laun vagnstjóra og versktæðismanna, sjá um frádrátt á opinberum gjöldum og uppgjöri á þeim og borga út launin í peningum. Á þessum tíma voru öll laun og opinber gjöld handfærð og í öll þessi ár kom það aldrei fyrir að athugasemd bærist frá Skattstofu enda var allt stemmt af upp á eyri.
Ég ætla að nefna þáverandi skrifstofustjóra það til hróss að aldrei dró hann úr manni að takast á við hin mismunandi störf á skrifstofunni þrátt fyrir mitt eigið vantraust á stundum.
Einn góðan veðurdag árið 1969 mætti ég Eiríki Ásgeirssyni forstjóra í stiganum og gaf hann sig á tal við mig. Erindið var að tilkynna mér að leggja ætti starf mitt niður og myndu Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurborgar taka við því. Raunin varð nú samt allt önnur og var ég næstu ár á eilífum hlaupum milli Skýrr og launadeildar borgarinnar og varð starfið margfalt umfangsmeira en áður.
Árið 1977 fluttum við í nýtt skrifstofuhúsnæði í Borgartúni 35 með útsýni yfir sundin blá. Á skrifstofuhæðinni var yfirverkstjórinn með skrifstofu sína, launabókhaldið, gjaldkeri, skrifstofustjóri, afgreiðsla, skrifstofa forstjóra, eins manns tæknideild og talningin.
Á níunda áratugnum urðu miklar breytingar á skrifstofunni. í upphafi hans lést Eiríkur Ásgeirsson forstjóri og við starfi hans tók Sveinn Björnsson. Sveinn var alla tíð mjög þægilegur yfirmaður. Árið 1984 hætti Skúli Halldórsson skrifstofustjóri störfum fyrir aldurs sakir en hann hafði starfað hjá SVR í 54 ár. Virði ég það við alla hlutaðeigandi að bíða með að tölvuvæða bókhald fyrirtækisins það til Skúli hætti störfum.
Við starfi Skúla tók Hörður Gíslason og urðu ýmsar breytingar á vinnubrögðum við komu hans. Hörður hagræddi mörgu og einfaldaði og get ég ekki hugsað mér þægilegri samstarfsmann.
Árið 1988 hætti Jóhanna Bjarnadóttir gjaldkeri störfum fyrir aldurs sakir en hún hafði starfað sem gjaldkeri í 40 ár. Jóhanna var mjög nákvæm og athugul enda munaði aldrei farmiðaspjaldi eða peningum í sjóði hvorki hjá henni eða mér en ég hafði leyst hana af í 32 ár.
Um þetta leyti hafði starf mitt dregist saman vegna ýmissa breytinga og varð það úr að ég tók við starfi Jóhönnu ásamt mínu og fékk ég leyfi til þess að kalla eftir þeirri hjálp, sem ég þurfti á að halda. Það féll aðallega í hlut Gunnlaugar Emilsdóttur, sem starfaði í talningunni. Öll innkoma til SVR fór í gegnum mínar hendur og öll farmiðaafgreiðsla og auk þess sá ég um að leggja inn í banka daglega.
Árið 1993 dundu ósköpin yfir, þ.e. uppsögn allra starfsmanna og sú lágkúrulega fullyrðing að starfsmenn SVR væru ekki fastráðnir starfsmenn. Ég, ásamt öðrum sem sáu um laun til starfsmanna SVR, vann eftir þeirri reglu eftir árið 1956, að þegar starfsmaður var búinn að vinna í eitt ár, fékk hann greiddan fyrirfram einn mánuð og byrjaði að greiða í lífeyrissjóð og þar með var hann fastráðinn. Það var mikið áfall að mæta á fund í matsal SVR og heyra þáverandi borgastjóra Reykjavíkur Markús Örn Antonsson ásamt þáverandi stjórnarformanni SVR Svein Andra Sveinssyni tilkynna starfsmönnum að þeir væru ekki fastráðnir. Við starfsfólkið vorum sem lömuð þó að við bærum okkur vel.
Um áramótin 1993-1994 var fyrirtækinu skipt upp í tvennt, þ.e. Samstarfsnefnd um almenningssamgöngur(SNA) og Strætisvagna Reykjavíkur hf. Hörður Gíslason fór yfir til SNA og bauð mér að fylgja sér ásamt starfi mínu og þáði ég það með þökkum.
22, febrúar 1994 fluttum við í Aðalstræti 6, Morgunblaðshöllina. Þar leið mér vel, hafði sama góða húsbóndann og áður og góða aðstoðarstúlku. Allt gekk að óskum. Og svo kom sameiningin og allir glöddust yfir því að allt yrði eins og áður. Raunin hefur nú kannski ekki orðið sú að allt yrði eins og áður. Miklar skipulags- og mannabreytingar hafa orðið á skrifstofunni og einnig hefur starf mitt tekið miklum breytingum. Aðalatriðið fyrir mig hefur verið að ná tökum á öllum þessum breytingum og það tel ég mig hafa gert með góðra manna hjálp.
Þegar ég lít til baka yfir þessi 50 starfsár get ég ekki annað sagt en að ég hafi verið mjög heppin í starfi. Ég hef alla tíð verið mjög hraust og hef aðeins verið frá í innan við mánuð, samanlagt vegna veikinda í þessi 50 ár. Samstarfsfólk hefur verið nánast án undantekninga verið traust og gott og er þetta tvennt ekki það sem gefur vinnunni gildi?
Reykjavík, 1. október 1997
Sólveig Magnúsdóttir
Sólveig Ólafsdóttir